mánudagur, 23. apríl 2007

Mímir inn góði

Elskulegu Skruddur!

Þar sem stór hluti ritstjórnar Mímis, hins undurfagra blaðs vorra íslenskunema, er þáttakandi í bókaklúbbnum viljum við bjóða Skruddum að gerast áskrifendur. Ekki þarf að eyða orðum í það hve miklar dásemdir það hefur í för með sér fyrir ykkur að gerast áskrifendur blaðsins. Þó má nefna að allir íslenskunemar, nýir sem gamlir, ættu að hafa gaman af því að fylgjast með fræðum og ófræðum íslenskunema og áskrift að Mími hlýtur að vera besta leiðin til þess.

Viljum vér því bjóða ykkur, ástkæru vinur, að senda okkur nafn yðar, heimilisfang og kennitölu á póstfangið mimirinn@gmail.com ef þið hafið áhuga á að skrá ykkur.

Með von um frábærar viðtökur,
Hlíf

P.s sorrý ef ég fer yfir strikið í lýsingarorðanotkun í þessari færslu. Í stuttu máli: vildi bara bjóða ykkur að gerast áskrifendur.

P.p.s nýtt blað kostar 1500, en eins og þið vitið kemur blaðið svolítið stopullega út, svo það er ólíklegt að þetta rúi ykkur inn að skinni...:)

P.p.p.s ef einhvern langar að kaupa gömul tölublöð (og er ekki þegar búinn að því), þá erum við með pakka af gömlum blöðum á tilboði: 9 stykki á samtals 500 kr!

P.p.p.p.s Ef einhvern langar ekki að vera áskrifandi en langar samt að eignast þetta tölublað, þar sem bókaklúbbsmeðlimir þekkja ritstjórnina og marga greinarhöfunda (nokkrir þeirra meira að segja í bókaklúbbnum), þá er náttúrulega sjálfsagt mál að kaupa bara þetta eintak. Auglýsi það seinna:)

fimmtudagur, 19. apríl 2007

Næsti bókaklúbbur!



Sælar bókaklúbbínur og gleðilegt sumar :)

Ég hugsa að ég láti til skarar skríða og velji Rokkað í Vittula fyrir næsta bókaklúbb. Helga og Eyrún hinar víðlesnu hafa að sjálfsögðu lesið bókina, en ég hugsaði sem svo að þar sem þær hafa margsinnis lýst því yfir að þær séu á bólakafi í lærdómi og fleiru næstu misserin, þá þurfa þær ekkert að stressa sig of mikið út af bókaklúbbnum, í mesta lagi rifjað bókina aðeins upp :) Er það díll?

Hérna er tengill inn á einhverja Eddu síðu um bókina, þar sem finna má ýmsar upplýsingar um þessa mjög svo skemmtilegu bók (Hlíf þú bara VERÐUR að gefa henni annan séns :).

Vona að allar séu sáttar við þessa ákvörðun, annars látið þið bara í ykkur heyra!

Ég á bókina en ég tími ekki að lána ykkur hana. Grín. Látið mig vita ef þið viljið fá bókina lánaða.

Sumarkveðjur,

Þórdís rokkari.

Ps: Ég var að skoða miðasöluna á Leg á netinu, og þar eru bara gefnar upp sýningardagsetningar fram til 5. maí. Ekki veit ég hvort það á að hætta að sýna þá (efast um það) eða hvort að fleiri sýningadagsetningar séu ekki ákveðnar. Sé heldur ekki fleiri sýningar ef maður flettir dagatalinu þarna vinstra megin á síðunni. Anyways, ég ætla að reyna að muna að hringja uppeftir á morgun og tékka á þessu!
Læt ykkur vita.

mánudagur, 16. apríl 2007

SKOÐANAKÖNNUN


Sælar allar saman.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað er erfitt að bera ábyrgð á næsta bókaklúbb! Höfuðverkur, valkvíðaköst, ógleði, einbeitingarskortur, allt þetta hefur hrjáð mig síðustu daga. Það er hægara sagt en gert að velja bók!
Neinei, ég er nú bara að grínast. Þetta er samt ekkert auðvelt!

Mig langar að gera smá skoðanakönnun á því hverjar ykkar hafa lesið bókina Rokkað í Vittula eftir Mikael Niemi.

Hún er ógisslega skemmtileg ( hef sumsé lesið hana en get lesið hana aftur og aftur), en mig grunar að einhverjar ykkar séu nú búnar að lesa hana. Ef ekki langar mig að velja hana. Þannig að viljið þið vinsamlegast láta vita hérna í kommentakerfinu hvort þið hafið lesið þessa bók eður ei.

Bestu þakkir og kveðjur,

Þórdís.

föstudagur, 13. apríl 2007

Siðasti bokaklubbur og næsti

Dömur mínar.

Þakka ástsamlega fyrir mig. Einkum fyrir allan harðfiskinn (sem er agalega þjóðlegur réttur) og bókaumræður (sem voru mjög alþjóðlegar).

Ég vil ítreka það hér og nú að Þórdís á að sjá um næsta bókaklúbb og þar af leiðandi næstu bók. Sá klúbbur verður þó væntanlega ekki fyrr en í byrjun júní. Í gær kom nefnilega upp sú hugmynd að skreppa saman í leikhús og sjá Leg. Síðan gætum við alla skundað á kaffihús og krufið stykkið til mergjar. Erum við ekki allar til í þetta? Leikhúsferðin verður ekki fyrr en í fyrsta lagi um miðjan maí. Við erum nefnilega nokkrar á kafi í tryllinslærdómi.

Nú ætla ég að fara að lesa. Var nefnilega að fá einn pakkann enn frá Amazon.

Helga kennslukona.

fimmtudagur, 12. apríl 2007

Bókaklúbbur í kvöld, fimmtudag

Sælar venur

Eins og síminn ykkar getur sagt ykkur, þ.e. textaskilaboðin sem ég var að senda, datt okkur í hug sú neyðarlending að halda klúbbinn í kvöld hjá Evu á Eggertsgötu 2. Ég veit að fyrirvarinn er enginn en þetta var nú gert svona til að Rannsí fjarlimur hefði tækifæri til að koma áður en hún fer aftur til Baunalands.
Þannig að barnafólkið er svo sem löglega afsakað ef ekki fæst pössun (hvað með pabbana?), en það væri nú fínt að skreppa aðeins til Evu og spjalla um Viltu vinna milljarð...

Hvað segið þið?

Kv. Eyrún

fimmtudagur, 5. apríl 2007

Næsti bokaklubbur

Hæ, stelpur.

Af einhverjum undarlegum ástæðum virðist ég ekki geta skrifað broddstafi í titlum. Dularfullt mál.

Eva talar um það í athugasemd við síðustu færslu að fresta klúbbnum til 12. eða 13. apríl. Hvernig líst ykkur á það?
Sjálfri þætti mér best ef klúbbnum yrði frestað alveg til 16. apríl - við Eyrún erum nefnilega bæði með krónískt taugaáfall og hjartaáfall og gjörsamlega á kafi í ofsalærdómi. Við erum örugglega komnar með áfallastreituröskun og sjálf er ég orðin svo heimsk að ég er örugglega komin með sérstæka námsörðugleika.

Hvernig virkar sextándi fyrir ykkur? Rannsý - verður þú enn á landinu þann sextánda?

Helga.

PS. Óska Sigurrós hér með til lukku með afmælið um daginn og þakka kærlega fyrir mig, það var æðislega gaman í afmælinu og veitingarnar frábærar. Ég át svo mikið að ég gat varla sofnað og var enn södd þegar ég vaknaði daginn eftir.

mánudagur, 2. apríl 2007

Að spilla pikum ...

Stelpur, ég var að lesa ljóð. Það heitir Píkna-spillir.

Finnst ykkur þetta ekki agalegt? Ljóðið fjallar um það "að meiriháttar stúlkur láti og látið hafi svo opt fallerast hér á landi; kennist helzt um það hirðuleysi foreldra og illri siðvenju í hússtjórninni, hvar einginn munr er gjörðr á góðu og illu, háu og lágu, yfirráðum og undigefni."

Vegleg verðlaun í boði fyrir þá snót sem getur upp á höfundinum!

Kveðja, Helga.